Móttökudeild
Í Breiðagerðisskóla er starfrækt önnur móttökudeild af tveimur í Reykjavík fyrir nemendur í leit að alþjóðlegri vernd. Móttökudeildin var upphaflega stofnuð vorið 2019 og var fyrstu árin starfrækt við Álftamýrarskóla. Vorið 2022 var ákveðið að flytja starfsemina í Seljaskóla og haustið 2024 var síðan ákveðið að skipta deildinni upp í tvennt og staðsetja móttökudeild fyrir nemendur í 1.-5. bekk í Breiðagerðisskóla og nemendur í 6-10. í Seljaskóla.
Móttökudeildin hefur tvær rúmgóðar kennslustofur á skólalóð til umráða, auk þess sem ein útikennslustofa til viðbótar er skrifstofa deildarstjóra, þar sem meðal annars fara fram fundir með foreldrum. Markmiðið með deildinni er að taka vel á móti börnum sem koma mörg hver úr mjög erfiðum aðstæðum. Sum hafa verið lengi á flótta og eru með rofna eða jafnvel enga skólagöngu að baki. Lögð er áhersla á að hjálpa börnunum að aðlagast íslensku skólakerfi hægt en örugglega þannig að skólaganga þeirra verði sem farsælust.
Starfsfólk móttökudeildar
Við móttökudeildina starfa deildarstjóri, tveir grunnskólakennarar og einn iðjuþjálfi með íþróttakennaramenntun. Starfsfólk deildarinnar býr yfir mikilli reynslu þegar að kemur að því að vinna með nemendum sem koma úr flóknum aðstæðum.